Heimsmeistaramótið í F3F – Dagur 4

Við fórum snemma út í morgun og komum Erlingi í loftið rétt fyrir sólarupprás eða 7:25. Hann er mjög ánægður með vélina og náði að fljúga í þriðja hóp sjöttu umferðar og er svo með fyrstu mönnum út í sjöundu umferð.

Veðurspáin heldur áfram að standast og vorum við í topp aðstæðum í Vitt í allan dag. Vindurinn var í kringum 9-10 metra en sló upp í 12 m/s á tímabili. Dagurinn gekk mjög vel og voru fjórar umferðar flognar auk þriðja hóps sjöttu umferðar.

Nýr liðsmaður bættist í íslenska hópinn í dag þegar við tókum inn sérstakan kastara alla leið frá Noregi. Gegnir hann nafninu Espen Torp, hann er fínasti kastari og hver veit nema við leyfum honum að fljúga með okkur einhvern tíma.*

Dagurinn gekk að mestu áfallalaust fyrir sig nema sökum ókyrrðar þurftum við að lenda talsvert aftar í dag og þar var ekki búið að grjóthreinsa eins vel á hinu svæðinu. Sverrir fékk nokkrar rispur og smá gat á frambrún en Guðjón fékk litla rifu undir vænginn. Ekkert sem smá límband gat ekki lagað og hindraði það menn ekki í flugum í dag. Ungi flugmaðurinn frá Úkraníu flaug á tré og splundraðist vélin hjá honum við það. Stefan Fraundhofer frá Austurríki bætti sinni vél svo við kafbátaleitarflota NATÓ í Eystrasalti.

Eitthvað á að hægja á vindi á morgun og byrjum við eflaust á Goorer Berg en gætum þurft að færa okkur í Vitt eftir hádegi samkvæmt spánni. Ekki á óskalistanum þar sem gott væri að ná fjórum umferðum á morgun og einni á laugardaginn en þá verða tvær verstu umferðirnar felldar út.

* Fyrir þá sem ekki vita það þá er Espen með betri flugmönnum á hnettinum og þótt víðar væri leitað og bauðst hann til að aðstoða okkur við köstin í keppninni sem við að sjálfsögðu þáðum.